Veiðistaðir

1. Bæjarfljót

Bæjarfljótið var neðsti veiðistaðurinn í Reykjadalsá. Það er alveg þess virði að skoða þennan stað þar sem maður getur hitt á miklar laxagöngur fyrri hluta tímabilsins. Áin er mjög oft lituð þarna af Hvítánni.

1,5. Ónefndur

Nýr staður sem gerður var árið 2002. Það veiðast stöku laxar og sjóbirtingar á þessum stað og er það helst þegar fiskur er í göngu. 

2. Klettsfoss

Klettsfoss er mjög fallegur föss rétt fyrir neðan brúna við bæinn Klett. Klettsfossinn gefur alltaf nokkra fiska á ári og þá frekar fyrri part sumars. Tvær lænur eru þarna, önnur við minna rennslið og hin við aðal rennslið í fossinum. Hægt er að veiða lænurnar beggja megin frá. Sennilega er betra að vaða yfir ána fyrir ofan þar sem varasamt er að vaða fyrir ofan fossinn og veiða þeim megin því sé eitthvað magn af fiski í hylnum þá er síður hætta á því að styggja fiskinn og betra að athafna sig í löndun. 

3. Klettsfljót

Klettsfljót er yfirleitt sá staður sem skilar flestum fiskum í bókina ár hvert. Þetta er frekar stór staður og það getur verið erfitt að vita hvar fiskurinn liggur fyrst um sinn. Fljótið er veitt frá báðum bökkum, sé staðið húsmegin er annað hvort kastað frá steinunum og út að brú eða beint út af grasbakkanum. Sé veitt bílmegin þá er best að standa á grynningunum eða eyrinni. Þessi staður hentar mjög vel til fluguveiða þá sérstaklega með flotlínu. Klettsfljótið getur geymt marga fiska og sérstaklega í ljósaskiptunum. Magnaður staður og getur haldið mörgum veiðimönnum hreinlega föstum en reynslan sýnir að það er gott að hvíla staðinn reglulega.

4. Þúfukvörn

Það er frekar langt að ganga þangað því það er nánast ómögulegt að komast þarna á bíl. Staðurinn er varla erfiðisins virði. 

5. Mjóanesáll

Mjóanesáll er mjög skemmtilegur staður og þar veiðist vel. Best er að leggja bílnum á túninu og varast að fara á honum út að bakkanum. Best er að vaða síðan yfir ána fyrir ofan hylinn (smá skurður þar sem vaðið er yfir) og kasta frá eyrinni upp að stóra bakkanum og kemba allt svæðið alveg niður frá þeim stað sem vaðið er yfir. Helsti tökustaðurinn er þó oftast rétt við eða í kringum grjótið sem skagar aðeins út í ána hábakkamegin. Laxinn liggur oft þarna í torfum. Mjóanesáll er stórfiskastaður þar sem oftar en ekki veiðast árlega stærstu fiskarnir. Hægt er að læðast upp að stóra bakkann og skyggna í hylinn varlega.

6. Hamarsgeiri

Þessi staður getur verið mjög misjafn eftir því hvernig áin er. Það er grjót í miðjum hylnum sem laxinn liggur mjög oft við.

7. Klapparhola/Ásgarðshola

Mjög sérkennilegur staður, djúpur skurður sem liggur þvert á ánna. Það koma alltaf laxar upp úr þessum hyl á hverju ári en laxinn getur legið þarna tugum saman þótt það sjáist ekki. Laxinn tekur best á maðk og er best að sökkva honum vel. Hægt er að veiða á staðnum báðum megin frá en einungis með flugu eyrarmegin. Flestir veiða þó þennan stað með maðki og eru þá gjarnan þeim megin sem hái bakkinn er en þá þarf að fara mjög varlega þar sem veiðimenn eru nánast komnir ofan í hylinn. 

8. Ásgarðsfljót

Ásgarðsfljót er um 40 metra fyrir ofan Klapparholuna, þetta er frekar grunn beiða með mikið af gróðri og steinum en ágætis renna sem er alveg við landið. Tökustaðurinn er oftast útaf merkinu sem er þarna. Ásgarðsfljótið gefur oft marga laxa.

9. Kársnesfljót

Veiðistaðurinn er langur strengur í miðri ánni. Strengurinn myndast þarna vegna gróðurs sem er í botni fjærmegin árinnar og líkar laxinum ágætlega að liggja í skjóli við hann. Lax getur tekið alveg frá efsta stað þar sem strengurinn byrjar að myndast og alveg niður um 100metra.

10. Sturlureykjastrengur

Sturlureykjastrengur var einn af betri stöðum í ánni fyrir allmörgum árum. Hann hefur aðeins dalað undanfarin sumur en skilar samt alltaf sínu. Þegar komið er að hylnum sést mjög mikið af gróðri í botninum og oft stendur hann upp úr. Best er að vaða yfir og veiða þennan stað eyramegin, kasta að gróðrinum og í rennu sem fiskurinn liggur ofast í.

11. Laugarvallabreiða

Erfitt er að komast að Laugarvallabreiðu. 

12. Nesfljót

Þegar farið er niður að Nesfljóti er fyrst keyrt yfir á vaði og keyrt áfram niður með ánni. Þessi staður var mjög gjöfull fyrir nokkrum árum og var þá gjarnan mesta veiði að hafa beint út af merkinu við háabakkann. Þar var mjög djúp og flott renna alveg við torfbakkann sem hefur eitthvað grynnkað hin síðari ár en vel þess virði að prófa. Sé gott vatn þá er um að gera að veiða niður með háa bakkanum alla leið frá vaði og niður úr. 

13. Grímstaðaeyrar

Grímstaðareyrar er í breiða lygnunni fyrir neðan Grímstaðarfljót þar sem laxinn liggur oft í og alveg við sefið sem er á fjærbakkanum,

14. Grímstaðafljót

Grímstaðafljót tekur beint fyrir ofan Grímstaðareyrarnar. Laxinn liggur oft í kringum grjótið sem er í botninum. Búið er að sturta steypuhnullungum í kantinn á hábakkanum og liggur fiskurinn oftast beint undir þeim bakka. Gott er að veiða allt svæðið vel þar sem hann getur legið út um allt á þessu svæði.

15. Kópareykjastokkur

Kópareykjastokkur er mjög langur veiðistaður, neðsti hluti hans er fyrir ofan efstu beygjuna í Grímstaðarfljóti. Best er að veiða allan staðinn niður því laxinn getur legið hvar sem er í hylnum. Bestu staðirnir eru efst í straumnum, fyrir miðju þar sem bakkinn hækkar og svo fyrir miðju á háa bakkanum.

16. Reykholtsfljót

Reykholtsfljót er í raun tveir veiðistaðir. Neðri er þar sem merkið er fyrir neðan fótboltavöllinn, sá hylur eða renna nær 50 metra niður eftir merkinu og getur lax legið um hann allan. Efri hluti Reykholtsfljóts er á vinstri hönd þegar komið er eftir malarveginum niður að ánni Reykholtsmegin. Mikið er af steinum með bakkanum norðan megin og liggur fiskurinn oft í þeim. Best er að veiða staðinn frá syðri bakkanum frá horni og niður úr. 

17. Hægindisstrengur

Keyrt er í gegnum bæinn Hægindi eða frá Reykholtsfljóti og stundum keyrt yfir á vaði neðan hylsins (fer eftir vatnavöxtum). Langbest reynist að veiða eyrarmegin frá og getur laxinn legið niður alla rennuna en oftast tekur hann við merkið sem er í hábakkanum.

17,5 Klofið

Klofið virðist vera staður sem hefur myndast eftir miklar leysingar, þetta er mjög djúpur og stór hylur. Þarna eru mjög oft lax en það getur verið erfitt að sjá hann. Laxinn liggur þarna undir bakkanum við torfu sem er ofan í hylnum og því er best að sökkva agninu niður að fiskinum. Ráð er að veiða svæðið fyrir neðan allan háa bakkann allt niður á stóru breiðuna en þar eru oft laxar.

17,75 Ónefndur

Nýr staður 100 metra fyrir ofan Klofið, sem hefur gefið fiska undanfarin ár. 

18. Breiðafljót

Breiðafljót er líklega sá staður sem kemur númer tvö í röðinni fyrir bestu veiðistaðina. Það telst til undantekningar ef það er ekki fiskur í þessum hyl. Best er að veiða hylinn frá eyrinni og það er gott að byrja efst og veiða alla leið niður. Helstu legustaðir laxins eru 10 metra fyrir neðan efsta hluta hylsins og svo um 20 metra neðar. Tilvalið er að ganga niður að Klofinu frá Breiðarfljótinu því oft leynast fiskar í litlu hyljunum sem eru þar á milli.

19. Vilmundastaðarfljót

Staðurinn hefur verið úti undanfarin ár en hefur verið lagaður.

20. Brúarstrengur

Staðurinn hefur verið úti undanfarin ár en hefur verið lagaður.

21. Gilskjafur/Rauðsgil

Þessi hylur er þar sem áin úr Rauðsgili kemur út í Reykjadalsánna. Þetta er mikil og falleg veiðileg breiða sem vert er að gefa góðan gaum. Menn hafa lent í ævintýralegri veiði á þessum stað.

22. Eyjafljót

Til þess að komast að Eyjafljóti er keyrt á vaði fyrst rétt fyrir ofan Rauðsgil og svo aftur rétt neðan veiðistaðarins. Þarna borgar sig að fara mjög varlega og leggja bílnum töluvert frá. Staðurinn er mjög viðkvæmur og langoftast veiddur frá eyrinni. Veiðistaðurinn er nær grasbakkanum á móti og er þar mjög djúp renna en aðal hylurinn er neðst þar sem lítil torfa stendur upp úr, annars er best að veiða allan hylinn meðfram grasbakkanum og niður á breiðuna en fara mjög varlega.

23.Tunnubakki

Þessi hylur er meðfram grasbakka rétt fyrir neðan þar sem vegslóðinn endar. Þessi hylur virðist verða betri með hverju sumrinu og er nánast alltaf fiskur þarna, sérstaklega seinni parts tímabils. Þessi staður er eins og margir aðrir veiðistaðir og er langoftast veiddur eyrarmegin og er mjög viðkvæmur. Þarna getur fiskurinn tekið alveg frá efsta stað þar sem rennan dýpkar og alveg niður að útfalli úr hylnum. Þarna rétt fyrir neðan virðist vera að myndast annar hylur og tilvalið að prófa hann í leiðinni.

24. Torfbugur

Torfbugur er einn að betri stöðum í ánni en virðist einhverra hluta vegna gefa minni veiði en áður. Virðist laxinn ekki stoppa eins mikið í þessum hyl og áður. Hylurinn virðist þó vera að dýpka aftur. Hylurinn er tvískiptur, annar á breiðunni og hinn undir straumnum efst.

25. Hellufljót

Þetta er staður sem er fáir fara á og þarf að keyra spöl niður ána og yfir á tveimur vöðum til þess að komast að staðnum. Hylurinn er við grasbakka undir símastrengnum sem eru þarna. Fiskurinn liggur oft undir torfunni efst í strengnum en oftast í sjálfum hylnum.

26. Búrfellsfljót

Búrfellsfljót eru tveir staðir, neðar og efra. Þessi staðir voru með þeim betri í ánni fyrir nokkrum árum en Búrfellsfljótið virðist óðum vera að ná fyrra formi eftir dálitla lægð og er kominn þarna ágætis hylur. Þarna þarf eins og á mörgum stöðum í ánni að fara mjög gætilega.

27. Símastrengur

Símastrengurinn er mjög góður staður á efsta svæði árinnar. Það er hylur meðfram grasbakkanum. Best er að veiða efst í beygjunni og einnig niður með grasbakkanum, skilti sem merkir staðinn er beint fyrir ofan mesta dýpið í hylnum. 

28. Grjótapollur neðri

Grjótapollur neðri er hylurinn kringum klettinn, fiskurinn liggur oft þarna í beygjunni og einnig í straumnum meðfram klettinum. Best er að láta agnið sökkva vel og helst að láta það snerta botninn. Ef veitt er á flugu er ekkert að því að veiða “upstream” og láta fluguna sökkva vel niður því laxinn tekur oftast alveg við botninn. 

29. Grjótapollur efri

Laxinn virðist oft liggja í neðri pollinum en það kemur fyrir að fiskur er í þessum líka. Fiskurinn liggur oftast í miðjum pollinum og því þarf að fara mjög varlega á bakkanum þarna.

30. Giljafoss

Það er mjög erfitt að stunda veiðar á þessum stað því það er stór steinn þarna í hylnum sem gerir manni ekki kleift að kasta almennilega í hylinn. Einhver sagði að gott væri að veiða fossinn ofan frá og láta maðkinn detta niður í hylinn. Það gæti verið svolítið mál að landa fiskinum en allt í lagi að taka sénsinn. Það er oft lax í fossinum og þá sérstaklega þegar gott vatn er í ánni og liggur hann þá gjarnan við útfallið.


Prenta út veiðistaði

Shopping Cart
Scroll to Top